Innlent

Rifu í hár og potuðu í auga

Tveir menn á fertugsaldri hafa verið ákærðir fyrir að valda óspektum á almannafæri á Patreksfirði á síðasta ári. Þeir hafi verið „mjög æstir og ögrandi í framkomu við nærstadda", svo til ryskinga hafi komið.

Annar þeirra er ákærður fyrir að hafa barið með báðum höndum á lögreglubíl, opnað hurð á honum og reynt að toga mann út, þannig að til átaka hafi komið.

Þá eru báðir mennirnir ákærðir fyrir brot gegn valdstjórninni. Annar er ákærður fyrir að hrinda lögreglukonu við skyldustörf svo hún lenti á húsvegg og marðist.

Hinn er ákærður fyrir að hafa með ofbeldi og hótunum um ofbeldi leitast við að hindra þrjá lögreglumenn sem voru við skyldustörf, með því að hafa verið ógnandi í framkomu, óhlýðnast fyrirmælum og leitast við að koma félaga sínum undan handtöku. Jafnframt hafi hann beitt líkamlegum aflsmunum gegn tveimur lögreglumannanna og losað sig frá þeim er þeir reyndu að yfirbuga hann. Hann er sakaður um að hafa einnig ýtt við þeim, rifið í hár lögreglukonunnar og potað fingri í hægra auga hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×