Erlent

Þorskastríðsflugvélum lagt

Óli Tynes skrifar
Nimrod þota á eftirlitsflugi.
Nimrod þota á eftirlitsflugi.

Breski flugherinn er að leggja síðustu Nimrod eftirlitsflugvélum sínum. Þær hafa verið í notkun síðan 1969 og að sögn flughersins bjargað óteljandi mannslífum.

Margir fyrrverandi sjóliðar íslensku Landhelgisgæslunnar kannast vel við þessar fjögurra hreyfla þotur.

Þær voru talsvert notaðar til þess að fylgjast með varðskipunum í síðasta þorskastríðinu árin 1975-1976 enda búnar afskaplega öflugum ratsjám.

Breski flotinn sem þá var á Íslandsmiðum átti oft í erfiðleikum með að átta sig á hvar íslensku varðskipin voru stödd hverju sinni.

Lentu á Íslandi

Nimrod þoturnar voru þá notaðar til þess að leiðbeina þeim um hvar hættan leyndist.

Þetta var náttúrlega í miðju kalda stríðinu og aðalhlutverk þessara flugvéla var að fylgjast með Rússneskum herskipum og kafbátum á Norður-Atlantshafi.

Þær millilentu þá oft á Íslandi til þess að taka eldsneyti og hvíla áhafnirnar. Fyrir það var náttúrlega tekið meðan Gæslan var að vinna þetta síðasta þorskastríð.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×