Innlent

Vilja tilraunaveiðar á gulldeplu

Húsakosturinn fær andlitslyftingu á meðan hlé er gert á síldveiðum. fréttablaðið/valli
Húsakosturinn fær andlitslyftingu á meðan hlé er gert á síldveiðum. fréttablaðið/valli
HB Grandi hefur óskað eftir leyfi frá sjávarútvegsráðuneytinu til að hefja tilraunaveiðar á gulldeplu. Ef leyfið fæst gætu uppsjávarveiðiskip félagsins farið til veiða strax í næstu viku.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávar­sviðs, telur að hægt verði að ná árangri á veiðunum en reynsla undanfarinna tveggja ára hefur leitt í ljós að sérhönnuð flottroll frá Hampiðjunni skila mun meiri afla en þau flottroll sem fyrst voru reynd.

Í frétt á heimasíðu fyrirtækisins segir að nokkur bið verði á því að farið verði til síldveiða að nýju, en gefinn hefur verið út fjörutíu þúsund tonna kvóti. Ástæðan er sú að mikil óvissa var um það hvort aukið yrði við kvótann og því var ákveðið að ráðast í smávægileg viðhaldsverk í fiskiðjuverinu og fiskmjölsverksmiðjunni á Vopnafirði. Síldveiðar skipa HB Granda ættu að geta hafist að nýju eftir um tvær vikur.

Að sögn Vilhjálms eru fyrstu vísbendingar um ástand loðnustofnsins eftir rannsóknaleiðangur Hafrannsóknastofnunarinnar á dögunum uppörvandi. Vonandi leiði niðurstöður leiðangursins til þess að hægt verði að hefja loðnuveiðar fyrir áramót.- shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×