Lífið

Samdi við risann Macmillan

Glæpasagan Aska verður gefin út á vegum bandaríska forlagsins Macmillan.fréttablaðið/anton
Glæpasagan Aska verður gefin út á vegum bandaríska forlagsins Macmillan.fréttablaðið/anton

Yrsa Sigurðardóttir hefur samið við bandarískt risaforlag um útgáfu á einni glæpasögu sinni. Útgefendur þar í landi eru að leita að hinum næsta Stieg Larsson.

„Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir Yrsu,“ segir Pétur Már Ólafsson hjá útgáfuyrirtækinu Veröld. Bandaríska risaforlagið Macmillan hefur tryggt sér útgáfuréttinn á glæpasögu Yrsu Sigurðardóttur, Ösku. Samningurinn gekk í gegn á bókamessunni í Frankfurt. Útgefandinn er sá sami og er með Arnald Indriðason á sínum snærum í Ameríku. Á meðal annarra höfunda forlagsins er Nóbelsverðlaunahafinn Mario Vargas Llosa.

„Þetta sýnir bara hve staða Yrsu er sterk. Ameríka er gríðarlega stór markaður og þar hefur hún fengið mjög fína dóma bæði í New York Times og öðrum stórblöðum. Þarna eru klárlega miklir möguleikar,“ segir Pétur Már.

„Stieg Larsson er þarna feikilega vinsæll. Útgefendur í Evrópu og í Bandaríkjunum eru að líta til Norðurlandanna varðandi næstu stóru bækur. Þeir líta svo á að Norðurlönd séu vettvangur þess sem er merkilegast og mest spennandi að gerast í glæpasögum og Yrsa er hluti af þessari hreyfingu.“

Aska, sem er þriðja bók Yrsu, hefur selst í um fimmtán til tuttugu þúsund eintökum hér á landi síðan hún kom út fyrir þremur árum. Hún hefur einnig komið út í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Bretlandi og á Spáni. Stutt er síðan blaðið Daily Mirror gaf Ösku fjórar stjörnur og sagði hana hrollvekjandi trylli með frábærri fléttu.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.