Erlent

Óttast að Kínverjar taki þúsundir manna af lífi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd/ AFP.
Mynd/ AFP.
Mannréttindasamtökin Amnesty International hvetja kínversk stjórnvöld til að greina frá því hversu margir borgarar eru teknir þar af lífi á hverju ári.

Í nýrri ársskýrslu samtakanna um dauðarefsingar kemur fram að vitað sé til þess að 714 manns hafi verið teknir af lífi í 18 ríkjum í fyrra. Samtökin segja hins vegar að raunveruleg tala gæti verið miklu hærri vegna þess að þúsundir manna hefðu verið teknir af lífi í Kína.

Að minnsta kosti 366 manns voru teknir af lífi i Íran, 120 í Írak og 52 í Bandaríkjunum í fyrra.

Amnesty lofar Burundi og Togo fyrir að hafa afnumið dauðarefsingu. Segja samtökin jafnframt að í fyrsta sinn í nútímasögu hafi enginn verið tekinn af lífi í Evrópu eða ríkjum fyrrum Sovétríkjanna á síðasta ári.

Kínversk stjórnvöld segja að færri séu teknir af lífi þar í landi nú en áður, en segja jafnframt að fjöldi þeirra sem teknir eru af lífi sé innanríkisleyndarmál.

Amnesty óttast að fjöldinn hlaupi á þúsundum og að dauðarefsingum sé beitt gegn allt að 68 glæpum, þar á meðal glæpum sem ekki feli í sér neitt ofbeldi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×