Skoðun

Ný hugmynd að skemmtilegri helgi

Kæru íbúar í nágrannasveitarfélögunum, ef það er einhver sem ennþá heldur að það sé óyfirstíganlega löng leið til Reykjanesbæjar þá tilkynnist hér með að við erum að tala um klukkustund og undir ! Skora á ykkur að prófa hina betrumbættu Reykjanesbraut, tvöföld með meiru og vel upplýst. Þessar góðu samgöngufréttir gætu aðstoðað ykkur við valið á því hvað gera skuli um helgina 2. - 5. september.

Í Reykjanesbæ verður Ljósanótt haldinn í 11 sinn og hefst hátíðin á fimmtudeginum 2. september með því að skólabörn sleppa marglitum blöðrum til himins og bjóða um leið alla velkomna í heimsókn. Okkur finnst fátt skemmtilegra en að taka á móti gestum. Á fimmtudagskvöldinu opna flestar myndlistarsýningarnar og þið munið regluna, fyrstir koma, fyrstir fá.

Fjöldinn allur af þekktum og minna þekktum tón- og myndlistarmönnum munu bjóða upp á menngarveislu eins og þær gerast bestar. Handverk blómstrar sem aldei fyrr, verslanir bjóða upp á alls konar tilboð, bærinn bíður í súpu og Skessan í Hellinum í lummur.

Dagskráin, sem hægt er að sjá í heild sinni á ljosanott.is, er þéttskipuð og þaulskipulögð af vönum og metnaðarfullum einstaklingum sem allir leggjast á eitt við að gera hátíðina sem glæsilegasta í alla staði og þrátt fyrir að hart sé í ári þá sníðum við okkur einfaldlega stakk eftir vexti. Það verður flugeldasýning!

Ljósanótt er hátíð allrar fjölskyldunnar, uppskera þeirrar frjóu menningar sem hér býr allt árið um kring. Allir finna eitthvað við sitt hæfi, það er svo einfalt. Það er auðvelt að rata um í Reykjanesbæ, Hafnargatan liggur meðfram sjónum og það er aðal æð hátíðarinnar. Bílastæði eru ekki vandamál, það eru engin vandamál, við erum tilbúin og nú er bara að mæta.

Sjón er sögu ríkari og hverjum finnst ekki gaman að prófa eitthvað nýtt? Sjáumst á Ljósanótt í Reykjanesbæ.




Skoðun

Sjá meira


×