Innlent

Tveggja daga hvolpar misstu mömmu sína

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hvolparnir tveir eru nú munaðarlausir eftir að mamma þeirra dó í nótt. Mynd/ facebook síða Írisar Bjarkar.
Hvolparnir tveir eru nú munaðarlausir eftir að mamma þeirra dó í nótt. Mynd/ facebook síða Írisar Bjarkar.
„Lífið er hverfult. Hér sit ég buguð af sorg og sé varla út úr augunum fyrir táraflóði og hrópa út til ykkar því nú þarf ég aldeilis á hjálp að halda," segir Íris Björk Hlöðversdóttir sem átti tíkina Bellu.

Bella var Cavalier tík sem gaut fimm hvolpum fyrr í vikunni. Nú situr Íris hins vegar eftir með tvo tveggja daga gamla hvolpa sem geta sér litla björg veitt. „Þeir fæddust á þriðjudaginn, þeir voru fimm, og tíkin okkar dó í nótt," segir Íris í samtali við Vísi.

Íris hefur því brugðið á það ráð að auglýsa á facebook eftir annarri tík sem mjólkar og gæti tekið litlu hvolpana í fóstur. Íris segir að hvolpana vanti hjálp sem allra fyrst.

Viðbrögðin við tilkynningu Írisar á facebook síðu hennar hafa ekki látið á sér standa og má segja að samúðarkveðjum hafi hreinlega rignt yfir hana. En það breytir því ekki að enn leitar Íris eftir tík til að taka hvolpana sína í fóstur.

Þeir sem geta aðstoðað Írisi Björk geta sent henni skilaboð á facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×