Lífið

Hátíðarkvöldverður kokkanna

Steinn Óskar Sigurðsson matreiðslumaður segir uppselt á kvöldverðinn. Allir bestu matreiðslumenn ársins leggja til krafta sína. 
Fréttablaðið/anton
Steinn Óskar Sigurðsson matreiðslumaður segir uppselt á kvöldverðinn. Allir bestu matreiðslumenn ársins leggja til krafta sína. Fréttablaðið/anton

Hinn árlegi Hátíðarkvöldverður klúbbsins fer fram laugardagskvöldið næstkomandi í Turninum í Kópavogi. Kvöldverðurinn hefur verið haldinn óslitinn síðastliðin tuttugu og þrjú ár og er gríðarlega vinsæll viðburður ár hvert. Steinn Óskar Sigurðsson, formaður nefndar um Hátíðarkvöldverðinn, segir að uppselt sé á kvöldverðinn, en seldir eru 220 miðar og hafa fastagestir forgang í þeim efnum.

„Þetta er gríðarlega vinsælt og mikil eftirspurn miðað við miðafjöldann ár hvert. Miðinn kostar tuttugu og átta þúsund og innifalið í því verði er tólf rétta matseðill með vínum og eru það okkar færustu matreiðslumenn sem sjá um matreiðsluna,“ segir Steinn Óskar. Ábyrgðarmaður kvöldsins er Sigurður Gíslason, framkvæmdastjóri Veisluturnsins, og meðal þeirra matreiðslumanna sem munu leggja fram krafta sína þetta kvöld eru Jóhannes Steinn Jóhannesson, matreiðslumeistari ársins 2009, Hrefna Rósa Jóhannsdóttir Sætran, yfirkokkur á Fiskmarkaðnum, Friðgeir Eiríksson, yfirkokkur á Hótel Holti, Gunnar Karl Gíslason, kokkur á Dilli, auk annarra matreiðslumeistara.

Steinn Óskar segir að sérstakt þema sé valið fyrir hvert ár og í ár er þemað flóra Íslands. „Við göngum út frá þessu þema í matreiðslunni og notum auðvitað íslenskt hráefni og annað sem við fáum á þessum árstíma. Við fengum einnig Eggert Pétursson til að hanna undirdiskinn sem gestir fá með sér heim að kvöldverði loknum.“

Aðspurður segir Steinn Óskar mikið stress fylgja kvöldverðinum en að aldrei hafi komið til ósættis í eldhúsinu. „Ísland er svo lítið land og hér vinna og standa kokkarnir saman. Hingað til hefur þetta alltaf gengið rosalega vel fyrir sig,“ segir hann að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.