Innlent

Óheppilegt að halda í Halldór Ásgrímsson

Forsætisráðherra telur óheppilegt að ráðningarsamningur var endurnýjaður við Halldór Ásgrímsson í embætti framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar.

Þegar fjögurra ára ráðningartíma Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, í embætti framkvæmdastjóri ráðherraráðs Norðurlandaráðs lauk í sumar, var samningurinn við hann framlengdur um tvö ár að hans ósk.

„Ég myndi segja að það hefði verið heppilegra ef að samningurinn hefði ekki verið endurnýjaður," segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, er jafnframt samstarfsráðherra Norðurlandanna. Hún segir Halldór ráðinn af ráðherraráðinu og hann sé ekki fulltrúi Íslands. Hún hefði engu að síður viljað að framlengingin hefði verið rædd á vettvangi samstarfsráðherranna sem ekki hafi verið gert.



Katrín segist hafa gert mistök
Katrín Jakobsdóttir. Mynd/Stefán
„Og gera samráðherrum mínum grein fyrir því að það hefur auðvitað verið sett fram mikil gagnrýni á fyrri störf Halldórs í íslenskum stjórnmálum, meðal annars í rannsóknarskýrslu Alþingis," segir Katrín. Hún hafi eftir þetta gert ráðherrunum grein fyrir þessu en engar athugasemdir hafi verið gerðar við störf Halldórs hjá ráðherraráðinu. Endurnýjun ráðningarsamingsins hafi farið í gegnum rútinerað embættismannaferli.

„Það má segja segja að ég hafi gert mistök að ég taldi að þetta yrði rætt á fundi sem var ekki og það voru mín mistök," segir Katrín.

Ekki er vilji til þess meðal annarra samstarfsráðherra Norðurlandanna að taka ráðningarsamning Halldórs upp. En ráðning hans varð enn umdeildari eftir að útgerðarfyrirtæki sem hann tengist fjölskylduböndum fékk rúmlega tveggja milljarða afskriftir á lánum. Forsætisráðherra segir fyrri störf Halldórs umdeild og meðal annars hafi verið boðað til mótmæla fyrir utan fund Norðurlandaráðs í Reykjavík í næstu viku vegna endurráðningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×