Innlent

Miklar tafir á evrópskum flugvöllum

MYND/AP

Öngþveiti ríkir enn á mörgum flugvöllum vegna vandræðanna sem gosið í Eyjafjallajökli hefur skapað í Evrópu þrátt fyrir að flestir flugvellir hafi verið opnaðir.

Á Bretlandi eru allir flugvellir opnir og flogið hefur verið frá París, Amsterdam og Frankfurt í nótt og í morgun. Í Þýskalandi eru vellir hinsvegar lokaðir enn um sinn. Rúmlega 95 þúsund flugferðum hefur þurft að aflýsa vegna gossins í liðinni viku og sumir farþegar gætu verið vikur að koma sér heim að því er breska ríkisútvarpið segir. Búist er við miklum töfum á flugi fyrstu dagana en hundruð þúsunda ferðalanga bíða nú eftir að komast til sín heima.

Um helmingur allra ferða sem voru á áætlun í gær fóru í loftið og segjast talsmenn Evrópska loftferðaeftirlitsins bjartsýnir´a að hlutirnir komist í samt lag eftir nokkra daga. Flugrekendur hafa gagnrýnt hið viðamikla flugbann og segjast þeir nú ætla að þrýsta á um að ný módel verði smíðuð til þess að spá fyrir um öskufall og meta hættuna af flugferðum í ástandi líku því og verið hefur í Evrópu síðustu daga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×