Innlent

Breytti 10 mánaða fangelsi í skilorðsbundið í 3 ár

Kókaín. Mynd úr safni.
Kókaín. Mynd úr safni.
Hæstiréttur Íslands breytti dómi héraðsdóms frá því vor þar sem kona var sakfelld fyrir að hafa staðið að innflutningi kókaíns frá Dóminíska lýðveldinu ásamt unnusta sínum. Í héraði var konan dæmd í 10 mánaða fangelsi en Hæstiréttur dæmdi konuna í 3 mánuði skilorðsbundið fangelsi.

Konan var dæmd í maí síðastliðinum fyrir að hafa smyglað 817 grömmum af kókíni til landsins. Í dómi héraðsdóms segir að maðurinn hafi lagt á ráðin um innflutninginn og fjármagnað hann. Hann hafi síðan fengið konuna með sér og saman hafi þau farið til Dóminíska lýðveldisins, keypt fíkniefnin og falið þau í líkömum sínum. Því næsti hafi þau farið til Bandaríkjanna og þaðan hingað til lands. Unnusti hennar er breskur en sjálf talar konan ekki góða íslensku.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að konan hafi játað að hafa smyglað fíkniefnunum til landsins en andmælti því magni sem tilgreint var í ákæru og að innflutningurinn hafi verið í ágóðaskyni. Hæstiréttur telur að ekki hafi tekist að sanna annað en að ákærða hefði einungis talið að um væri að ræða innflutning til dreifingar á þeim fíkniefnum sem hún sjálf fékk afhent frá manninum og kom fyrir í líkama sínum, um 60 grömm af 24% sterku kókaíni.

Hæstiréttur hafnaði einnig því að líta ætti til skýrslna sem lögregla tók af konunni og unnusta hennar. Þær hafi ýmist ekki verið bornar undir þau fyrir dómi eða með ófullnægjandi hætti. Konan hefur ekki áður gerst sek um refsivert brot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×