Innlent

Bakkavík í Bolungarvík gjaldþrota

Bakkavík hf. í Bolungarvík hefur verið úrskurðað gjaldþrota og Tryggvi Guðmundsson skipaður skiptastjóri. Í tilkynningu frá félaginu segir að það hafi verið stofnað árið 2001 og hefur það rekið öfluga rækjuvinnslu í Bolungarvík síðan. Jafnframt rak félagið fiskvinnslu og útgerð um nokkurra ára skeið og var mest með rúmlega 100 manns í vinnu. Undanfarið hafa um 30 manns unnið hjá félaginu.

„Þegar félagið hóf starfsemi var gert ráð fyrir að vinna rækju að verulegu leyti úr fersku hráefni af heimamiðum, en eins og kunnugt er dró verulega úr rækjuveiði á Íslandsmiðum uppúr aldamótum. Af þeim sökum hefur félagið nær eingöngu unnið rækju af fjarlægum miðum, sem flutt er fryst til landsins. Staða rækjuiðnaðar á Íslandi hefur verið erfið allt frá stofnun Bakkavíkur og hafa flestallar rækjuvinnslur á Íslandi, Noregi, Danmörku og Færeyjum lagt upp laupana. Þrátt fyrir það skilaði rekstur Bakkavíkur þokkalegri afkomu allt til ársins 2009, en félagið hafði nýlokið við verulegar endurbætur á rækjuvinnslunni þegar efnahagshrun varð á árinu 2008. Vegna gengisbreytinga hækkuðu skuldir félagsins verulega og á sama tíma dró úr sölu afurða vegna efnahagskreppu á helstu mörkuðum," segir í tilkynningunni.

Þá segir að stjórnendur félagsins hafi nú um nokkurra vikna skeið átt í viðræðum við helstu lánadrottna félagsins um fjárhagslega endurskipulagningu. „Því miður hafa þær umleitanir ekki borið árangur. Þess vegna var stjórn Bakkavíkur hf. nauðugur sá einn kostur að óska eftir að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×