Innlent

Auglýsandi afneitar gjaldeyrisbrotum

Auglýsing sem beint var til erlendra aðila þar sem óskað er eftir viðskiptum með íslenskar krónur vekur spurningar í Seðlabankanum.
Auglýsing sem beint var til erlendra aðila þar sem óskað er eftir viðskiptum með íslenskar krónur vekur spurningar í Seðlabankanum. Fréttablaðið/GVA
Seðlabankinn brást í gær við auglýsingu í Fréttablaðinu þar sem óskað var eftir erlendum aðilum sem eigi íslenskar krónur, ríkisskuldabréf eða aðrar eignir á Íslandi.

Að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi ályktar Seðlabankinn að ætlun auglýsandans kunni að brjóta gegn gjaldeyrishöftum sem hér gilda. Auglýsingin er nafnlaus en vísað er í netfang og símanúmer í Lúxemborg.

„Ég er bara útlendingur sem bý í Lúxemborg og er að auglýsa eftir öðrum útlendingum sem eiga íslenskar krónur, það er ekkert ólöglegt við það,“ svaraði karlmaður á fullkominni íslensku í hinu uppgefna númeri.

Maðurinn neitaði að segja til nafns en kvaðst hafa búið ytra um árabil og hvorki vera bankamaður né útrásarvíkingur. „Ef þú hefur ekki áhuga á að selja mér íslenskar krónur eða kaupa gjaldeyri þá hef ég ekkert við þig að tala,“ svaraði nafnlausi maðurinn en upplýsti þó að hann vanti íslenskar krónur til að ganga frá tilteknum viðskiptum. Á sama tíma og hann fái ekki krónurnar keyptar geti Seðlabankinn og íslensku lífeyrissjóðirnir keypt krónur á aflandsmarkaði í Lúxemborg. Það sé veruleg mismunun.

„Svo ég ákvað að auglýsa bara sjálfur. Ég er útlendingur og ég má eiga þau viðskipti sem mér sýnist. Ég er bara að óska eftir heiðarlegum einstaklingum sem vilja eiga heiðarleg viðskipti,“ segir auglýsandinn sem aðspurður kveðst hafa fengið „fullt“ af viðbrögðum. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×