Innlent

Engin sátt grafi fyrirtæki undan réttindum launafólks

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Mynd/GVA
Það verður engin sátt á vinnumarkaði ef fyrirtæki ætla að nýta sér slæmt atvinnuástand til að grafa undan réttindum launafólks. Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Hann segir að það fari vaxandi að atvinnurekendur brjóti gegn kjarasamningum.

Ástandið á vinnumarkaði hefur verið slæmt frá hruni og í síðasta mánuði mældist atvinnuleysi 7,1 prósent. Ástandið er þegar byrjað að grafa undan réttindum launþega eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær. Óttinn við atvinnumissi er mikill meðal launþega og það hefur leitt til þess að fólk þorir ekki að kvarta þegar réttindi þeirra eru brotin.

„Þetta hefur farið vaxandi og auðvitað óttast maður að fyrirtæki haldi áfram að nýta sér þetta. Það er ljóst að við þessar aðstæður er staða starfsmanna veikari útaf þeirri undirliggjandi ógn sem að er gagnvart atvinnumissi," segir Gylfi. Hann segir mikilvægt að launþegar leiti til stéttarfélaga þegar brotið er gegn kjarasamningum.

„Auðvitað erum við að ræða þetta á sameiginlegum vettvangi og leiðir í þessu og munum vafalaust taka þetta upp við okkar gagnaðila. Vegna þess að ég ítreka það að þetta getur komið í veg fyrir það að sé hægt að mynda hér sátt á vinnumarkaði ef að fyrirtækin ætla í skjóli þessa ástands að ráðast á hvern okkar félagsmanna með þessum hætti. Það auðvitað gengur ekki," segir Gylfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×