Innlent

Kynna Ísland fyrir kínverskum ferðamönnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir ætlar að kynna Ísland fyrir kínverskum ferðamönnum. Mynd/ GVA.
Katrín Júlíusdóttir ætlar að kynna Ísland fyrir kínverskum ferðamönnum. Mynd/ GVA.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra ætlar til Kína ásamt viðskiptasendinefnd ferðaþjónustufyrirtækja til Kína um miðjan júní. Tilgangurinn er að kynna Ísland sem vænlegan áfangastað fyrir kínverska ferðamenn. Ferðin er farin í tengslum við Heimssýninguna Expo 2010. Iðnaðarráðherra mun leiða sendinefndina.

„Það er ekkert launungarmál að þarna er sístækkandi hópur sem er með töluvert fé á milli handanna. Þannig að ef við horfum bara einangrað á túrismann að þá eru þarna gríðarleg tækifæri og það eru alltaf fleiri og fleiri sem eru að ferðast út fyrir landið," segir Katrín. Íslendingar eigi að reyna að ná í bita af þeirri köku. Katrín segir að um sé að ræða ferðamenn sem skilji töluvert eftir sig. „Þannig að þetta eru ákjósanlegir ferðamenn," segir Katrín.

Hún bendir jafnframt á að Kínverjar séu risa fjárfestar í dag og þeir séu með mikla peninga á hreyfingu um þessar mundir. Það sé því mikilvægt að leggja rækt við samskiptin milli ríkjanna.

Katrín segist aldrei hafa komið til Kína áður. Aðspurð um hvort hún sé farin að hlakka til ferðarinnar segist hún ekkert vera farin að hugleiða hana mikið. „Þetta er svo langt inn í framtíðina," segir Katrín. Hún reyni að taka dag fyrir dag og viku fyrir viku. „En jú jú, það verður ábyggilega mjög áhugavert að koma þarna," segir Katrín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×