Skoðun

Ritun sögu Seðlabanka Íslands

Ritun sögu Seðlabanka Íslands fyrir hálfrar aldar afmæli stofnunarinnar er opinbert verkefni og óþarft að dylgjur séu um það. Síðsumars 2007 leitaði bankastjórn til mín um að taka saman heimildir og gögn verkinu til undirbúnings, en þetta hafði lengi verið til umræðu innan bankans. Ég vann að þessu í hlutastarfi frá september til ársloka 2007 og skilaði því þá af mér. Þá var sú mynd komin á verkið að bankastjórn bað mig að halda áfram, og var skipuð ritnefnd til að fylgja málinu eftir. Ég hélt því áfram í samstarfi við ritnefndina allt árið 2008. Launagreiðslum lauk í árslok 2008 og verkið var afhent fullbúið um vorið 2009.

Þetta rit um sögu Seðlabanka Íslands er hugsað sem yfirlitsrit fyrir almenning. Í megindráttum er þetta skýrsla um atburði og ákvarðanir sem einnig geti hentað fræðimönnum til frekari efnisvinnslu. Kaflar fjalla um sérstök svið starfseminnar og nokkur mikilvægustu fyrirbæri seðlabankafræða eru kynnt mjög lauslega. Fylgt er atburðum og ákvörðunum í íslensku fjármálakerfi ár fyrir ár. Í aðalatriðum fjallar verkið um sögu Seðlabanka Íslands frá því stofnunin var aðskilin frá Landsbanka Íslands árið 1961. Auk þess er rakin saga íslenskra seðla og myntar lengra aftur og nokkrir aðrir þættir einnig. Ritnefnd hefur tvívegis lesið verkið yfir og ég gert breytingar í framhaldi af athugasemdum hennar. Efni verksins lýkur við árslok 2008 og er verkið 356 blaðsíður lesmál í A4 broti.

Fyrir þetta verk fékk ég rúmlega 233 þús. kr. á mánuði síðustu fjóra mánuði ársins 2007 og tæplega 239 þús. kr. á mánuði allt árið 2008. Mér var sagt að þetta væri nærri launum framhaldsskólakennara en ég lagði ekki mat á það, enda verkefnisvinna í hlutastarfi og skil á mína ábyrgð. Mér vitanlega hafa ekki verið teknar frekari ákvarðanir um afdrif verksins, en það stendur fyrir sínu nú þegar í bókasafni Seðlabanka Íslands svo langt sem það nær. Aftur á móti lýkur frásögu þess í miðjum klíðum atburða, þannig að eitthvað þarf að vinna frekara að því, útvega myndir o.fl., ef almenn útgáfa verður að ráði.

Ég legg auðvitað ekki mat á ákvarðanir bankastjórnar og ekki er ég dómari um eigið verk.

Höfundur er fyrrverandi seðlabankastjóri og lektor við Háskólann í Reykjavík.






Skoðun

Sjá meira


×