Innlent

Íslendingar í Árósum berjast fyrir félagslífinu sínu

Valur Grettisson skrifar
Frá Árósum.
Frá Árósum.

Íslendingar í Árósum í Danmörku virðast tilbúnir til þess að berjast fyrir lífi Íslendingafélagsins þar í borg en Vísir greindi frá því í gær að til stæði að leggja félagið niður. Aðeins einn maður mætti á aðalfund félagsins fyrr í vikunni og því tókst ekki að mynda nýja stjórn.

Í athugasemdum við tilkynningu stjórnarinnar mótmæla Íslendingar því að félagið verði lagt niður þar sem ekki tókst að mynda nýja stjórn. Einn einstaklingur hvetur stjórnina til þess að boða til nýs aðalfundar.

Annar Íslendingur segir það dapurlegt að ekki sé hægt að manna stjórnina með þeim afleiðingum að félagið verði lagt niður, en þakkar fráfarandi stjórn, sem allir virðast sammála um að hafi staðið sig vel þann tíma sem hún hefur starfað.

Fráfarandi gjaldkeri félagsins svarar Íslendingunum og bendir þeim á að í þau fjögur ár sem hún hafi setið í stjórn félagsins hafi það sýnt sig að það er ávallt dræm mæting á aðalfundi félagsins.

Hún bendir á að ekki sé öll von úti fyrir félagið, enn gefst fólki kostur á að bjóða fram krafta sína hafi það áhuga.

Ógnin sem sækir að Íslendingafélaginu í Árósum er aðeins hluti af vandanum því aðeins tíu Íslendingar mættu á aðalfund Íslendingafélagsins í Kaupmannahöfn, sem er með þeim stærri.

„Það er betri mæting á fundi prjónafélagsins," sagði Sigurður Einarsson, formaður félagsins í Kaupmannahöfn vonsvikinn yfir þróun mála.


Tengdar fréttir

Íslendingafélög í útrýmingarhættu

Starf Íslendingafélaga í Danmörku er í mikilli lægð ef marka má dræma mætingu á aðalfundi þeirra. Aðeins tíu manns mættu á aðalfund Íslendingafélagsins í Kaupmannahöfn sem haldinn var í gær. „Það er betri mæting á fundi prjónafélagsins," segir Sigurður Einarsson, formaður félagsins, heldur vonsvikinn.

Íslendingafélagið í Árósum lagt niður

Það var ákveðið eftir aðalfund Íslendingafélagsins í Árósum í gær (ÍSFÁN) að leggja félagið niður. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu félagsins mætti aðeins einn aðili á fundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×