Sex mál sem tengjast stjórnendum Byrs sparisjóðs hafa verið send sérstökum saksóknara og til Fjármálaeftirlits.
Fyrrverandi stjórn Byrs vísaði málinu áfram skömmu fyrir yfirtöku ríkisins á sparisjóðnum í apríl, að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara. Málin koma til viðbótar þeim málum sem tengjast Byr og þegar eru í skoðun hjá embættinu.
Eftir því sem næst verður komist tengjast málin, svo sem grunur um innherjasvik í tengslum við viðskipti með stofnfjárhluti Ragnars Z. Guðjónssonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra, Atla Arnar Jónssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs, og Sighvats Sigfússonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra fjármálasviðs.
Þá sagði RÚV í gær eitt málanna tengjast Jóni Björnssyni, eiginmanni Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, fyrrverandi bæjarstjóra á Akureyri. Hann er grunaður um að hafa selt hlut í Lífsvali, sem á hátt í fimmtíu jarðir víða um land, til Byrs á yfirverði. Jón Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður Byrs, var einn eigenda Lífsvals. Fleiri mál eru tengd Jóni Þorsteini, svo sem Exetermálið svokallaða, sem fólst í lánveitingu Byrs til kaupa á stofnfjárhlutum í Sparisjóðnum af MP Banka. - jab
Mál tengd Byr komin á borð saksóknara
