Innlent

Eftirlit með eftirvögnum

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun í júnímánuði fylgjast sérstaklega með búnaði eftirvagna í umdæminu. Reynslan hefur sýnt að búnaði hjólhýsa, tjaldvagna og fellihýsa er á stundum ábótavant með tilheyrandi slysahættu. Ástandið hefur þó lagast síðustu ár, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni.

Þar kemur fram að ökumenn þurfa sérstaklega að huga að skráningu tækjanna áður en lagt er af stað, ljósabúnaði þeirra og festingum við bifreiðina. Þá bendir lögreglan á reglur um hliðarspegla og framlengingu þeirra þegar þess er þörf. Lögreglan bendir ökumönnum líka á að huga að þyngd hjólhýsa sinna, tjaldvagna og fellihýsa; að nota þau til að mynda ekki sem flutningstæki útilegu- eða viðlegubúnaðar enda skal þyngd þeirra ekki vera umfram skráningu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun jafnframt huga að vöntun skráningarmerkja á ökutækjum. Á ökutækjum skulu vera skráningarmerki bæði að framan og aftan. Í einhverjum tilvikum vantar annað númerið og þá yfirleitt að framan. Eru ökumenn beðnir um að huga að úrbótum og koma þannig í veg fyrir afskipti lögreglu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×