Innlent

Ný bæjarstjórn kemur saman

Lúðvík Geirsson hefur verið bæjarstjóri Hafnarfjarðar frá árinu 2002. Hann féll úr bæjarstjórn í kosningunum í maí en þrátt fyrir það verður hann áfram bæjarstjóri.
Lúðvík Geirsson hefur verið bæjarstjóri Hafnarfjarðar frá árinu 2002. Hann féll úr bæjarstjórn í kosningunum í maí en þrátt fyrir það verður hann áfram bæjarstjóri.
Ný bæjarstjórn Hafnarfjarðar kemur saman í fyrsta sinn í dag. Boðað hefur verið til mótmæla vegna ráðningar Lúðvíks Geirssonar sem bæjarstjóra.

Á fundinum sem fer fram í Hafnarborg og hefst klukkan 14 verður meðal annars kosið í nefndir og ráð, lögð fram stefnuyfirlýsing meirihluta bæjarstjórnar og ráðning bæjarstjóra. Hægt verður að fylgjast með fundinum á Vefveitunni á www.hafnarfjordur.is eða í útvarpinu á fm 97,2.

Meirihluti Samfylkingarinnar féll í kosningunum í lok maí og Lúðvík sem gegnt hefur embætti bæjarstjóra síðastliðinn átta ár féll úr bæjarstjórn. Eftir kosningarnar hófu Samfylkingin og Vinstri grænir viðræður um myndun meirihluta og samkvæmt samkomulagi flokkanna verður Lúðvík bæjarstjóri til ársins 2012.

Hópur Hafnfirðinga efnir til mótmæla gegn fyrirhuguðum meirihluta og ráðningu Lúðvíks fyrir utan Hafnarborg þegar bæjarstjórnarfundurinn hefst. Tæplega þúsund manns eru meðlimir hópsins á samskiptavefnum Facebook. Hópurinn vill að staða bæjarstjóra verði auglýst.

„Lúðvík Geirsson mun verða bæjarstjóri næstu tvö árin, þrátt fyrir þá staðreynd að Samfylkingin setti bæjarstjórastólinn að veði í kosningunum og tapaði," segir meðal annars í tilkynningu frá hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×