Handbolti

Guðmundur: Þennan leik áttum við að vinna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska landsliðsins í leiknum í kvöld.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska landsliðsins í leiknum í kvöld. Mynd/Leena Manhart
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska landsliðsins, var að vonum einkar óánægður með jafnteflið sem Ísland gerði við Serbíu á EM í handbolta í kvöld.

Serbar skoruðu síðustu fjögur mörk leiksins en lokatölurnar voru 29-29. Snorri Steinn Guðjónsson lét svo verja frá sér víti þegar venjulegur leiktími var útrunninn.

„Ég er rosalega svekktur. Varnarleikurinn í síðari hálfleik var mjög slakur og var alveg ótrúlegur munur á honum í fyrri hálfleik og svo þeim síðari. Alveg ótrúlegur munur."

Hann sagði liðið hafa gert nákvæmlega það í fyrri hálfleik sem lagt var fyrir.

„Við gengum í allar þeirra sóknaraðgerðir og við vissum nákvæmlega hvað við vorum að gera. Við vorum algerlega með þá. Þess vegna er þetta svona svekkjandi. Nú þurfum að skoða hvað gerist svo í síðari hálfleik."

„Við misstum einbeitinguna og markvarslan datt líka niður. Við það datt ákveðið öryggi úr okkar leik. Við fengum alls átján mörk á okkur í síðari hálfleik og það er allt of mikið. En þrátt fyrir það vorum við fjórum mörkum yfir þegar fimm mínútur voru eftir og það á að duga til sigurs. Við áttum að vinna þennan leik en því miður gerðist það ekki."

„Varnarleikurinn fór á það slæmt stig í síðari hálfleik að við eigum ekki að sætta okkur við slíka frammistöðu. Það var engu líkara að leikáætlunin sem við notuðum í fyrri hálfleik hefði bara ekki verið til staðar í þeim síðari."

En Guðmundur sagði sína menn ekki dottna af baki. „Þetta þjappar okkur enn betur saman. Svona eru bara íþróttirnar. Nú þurfum við að bíta í skjaldarrendur og taka næsta leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×