Innlent

Rannsóknarnefnd kirkjunnar lýkur störfum innan hálfs árs

Pétur Kr. Hafstein.
Pétur Kr. Hafstein.

Tillaga um rannsóknarnefnd, sem á að rannsaka starfshætti og viðbrögð Þjóðkirkjunnar vegna ásakanda á hendur Ólafi Skúlasyni biskupi, er meðal þess sem verður tekið fyrir á kirkjuþingi í dag en þar bíða 37 mál afgreiðslu.

Lagt er til að skipuð verði þriggja manna óháð rannsóknarnefnd. Formaður hennar á að hafa hæfi hæstaréttardómara.

Er nefndinni svo ætlað að rannsaka viðbrögð kirkjunnar og hvort mistök, vanræksla eða vísvitandi þöggun eða tilraun til þöggunar hafi verið að ræða af hálfu presta og annarra starfsmanna kirkjunnar.

Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings og fyrrverandi hæstaréttardómari, leggur fram tillöguna um klukkan eitt í dag. Hann vonast til þess að þetta muni skapa sátt.

„Það er alveg rétt að það hafa komið alvarlegar ásakanir á hendur kirkjunnar og þær beinast meðal annars að því hvernig kirkjan hafi brugðist við eða ekki brugðist við þessum ásökunum á sínum tíma. Því verður sett á stofn rannsóknarnefnd til þess að leiða í ljós hvernig kirkjan brást við þessum ásökunum á sínum tíma. Rannsóknarnefndin verður algjörlega óháð kirkjunni og sjálfstæð í sínum störfum," sagði Pétur.

Hann segir niðurstöður nefndarinnar liggi fyrir fjórum til sex mánuðum eftir að nefndin tekur til starfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×