Lífið

Nokkur stórafmæli í kortunum

Afmæli í ár. Páll Óskar verður með ferfalt afmælispartí, en Bubbi og Stuðmenn eru enn að spá í hvort þeir haldi upp á ferilsafmælin sín.
Afmæli í ár. Páll Óskar verður með ferfalt afmælispartí, en Bubbi og Stuðmenn eru enn að spá í hvort þeir haldi upp á ferilsafmælin sín.

Ef að líkum lætur verður árið viðburðaríkt, enda er þetta afmælisár fyrir marga. Til dæmis verður Páll Óskar fertugur, fjörutíu ár sömuleiðis verða síðan Stuðmenn komu fram í fyrsta skipti og fjörutíu ár verða síðan Listahátíð í Reykjavík var haldin fyrst. Þá verða þrjátíu ár liðin síðan Bubbi Morthens sló í gegn því bæði Ísbjarnarblús og Geislavirkir Utangarðsmanna komu út 1980. En á að halda upp á þetta?

„Já!“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson, sem verður fertugur þriðjudaginn 16. mars. „Ég verð með fjögur partí, eitt fyrir hvern áratug. Eins og planið er núna byrja ég á Nasa fimmtudaginn fyrir afmælið þegar ég held tónleika með Hjaltalín. Daginn eftir verður lítið matarboð fyrir blóðfjölskylduna. Laugardaginn 13. mars verður megapartí á Nasa en á afmælisdeginum sjálfum verður bara pínulítið matarborð fyrir mína nánustu vini.“

Palli sér ekki fram á að ný plata komi út á afmælisárinu – „Ég á frekar von á því að ég gefi út tvö, þrjú lög og geri vídeó við þau öll því ég elska að gera músíkvídeó. Ég ætla allavega ekki að stressa mig á því að prumpa út plötu 2010. En við erum alltaf að dúlla okkur. Ég og Örlygur Smári, Trausti Haralds og Toggi.“

Skoða og pæla

Jakob Frímann segir vissulega rétt að í ár verði fjörutíu ár liðin síðan Stuðmenn komu fyrst fram á MH-skólaballi á Hótel Sögu. „En það skýrist ekki fyrr en á næstu vikum hvort það verður eitthvað sérstaklega haldið upp á það,“ segir hann.

„Þetta voru ansi skrautleg ár sem komu þarna í kjölfarið og óminnishegrinn flögrandi yfir hausamótunum á sumum.“ Kannski Jakob og félagar bíði til 2015 þegar fjörutíu ár verða liðin síðan Sumar á Sýrlandi, sem gerði bandið að almenningseign, kom út.

Bubbi er álíka óráðinn og Jakob með sitt afmælisár. Hann sér hvorki endurkomu Utangarðsmanna né Ísbjarnarblús-tónleika í kortunum eins og er. „En hvað vitum við, maður? Samanber það að fyrir þremur árum var hér allt í blússandi sveiflu. Við erum bara að skoða þetta og pæla. Ég er svo að bíða eftir að Pétur Hallgrímsson klári túrinn með Emilíönu Torrini, því við erum að pæla í að taka upp plötu, ég og strákarnir mínir [Stríð og friður].“

Ekkert stórrokk á Listahátíð

Það mun sjást á listahátíð í ár að hún fagnar fertugsafmæli. Led Zeppelin kemur þó ekki aftur (eins og 1970) og ekki verður boðið upp á nein innflutt risanúmer í poppi eða rokki, frekar en undanfarin ár.

„Þemað í ár verða ljósmyndir og það verða bókstaflega ljósmyndir út um allan bæ, bæði í galleríum og utan þeirra,“ segir Steinunn Þórhallsdóttir kynningarstjóri. „Listahátíð speglar alltaf samtímann og það verða ekki fluttir inn neinir listamenn á sama skala og 2007. Það rýrir ekkert innihaldið að mínu mati. Prógrammið skýrist á næstu vikum, en ég get sagt að við erum að fá risanöfn í klassíska heiminum, norska píanósnillinginn Leif Ove Andsnes og Tetzlaff-systkinin.“drgunni@centrum.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.