Innlent

Mál tengd Byr komin á borð saksóknara

Ekki er útilokað að ákært verði í nokkrum málum sem tengjast Byr, að sögn Ólafs Þórs Haukssonar.
Ekki er útilokað að ákært verði í nokkrum málum sem tengjast Byr, að sögn Ólafs Þórs Haukssonar.
Sex mál sem tengjast stjórnendum Byrs sparisjóðs hafa verið send sérstökum saksóknara og til Fjármálaeftirlits.

Fyrrverandi stjórn Byrs vísaði málinu áfram skömmu fyrir yfirtöku ríkisins á sparisjóðnum í apríl, að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara. Málin koma til viðbótar þeim málum sem tengjast Byr og þegar eru í skoðun hjá embættinu.

Eftir því sem næst verður komist tengjast málin, svo sem grunur um innherjasvik í tengslum við viðskipti með stofnfjárhluti Ragnars Z. Guðjónssonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra, Atla Arnar Jónssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs, og Sighvats Sigfússonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra fjármálasviðs.

Þá sagði RÚV í gær eitt málanna tengjast Jóni Björnssyni, eiginmanni Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, fyrrverandi bæjarstjóra á Akureyri. Hann er grunaður um að hafa selt hlut í Lífsvali, sem á hátt í fimmtíu jarðir víða um land, til Byrs á yfirverði. Jón Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður Byrs, var einn eigenda Lífsvals. Fleiri mál eru tengd Jóni Þorsteini, svo sem Exetermálið svokallaða, sem fólst í lánveitingu Byrs til kaupa á stofnfjárhlutum í Sparisjóðnum af MP Banka. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×