Innlent

Samninganefndin klár - fundað í Bretlandi á morgun

Búið er að skipa endanlega samninganefnd Íslands í Icesave-deilunni. Nefndin fer til Bretlands á morgun til viðræðna við Hollendinga og Breta.

Fjórir sitja í nefndinni samkvæmt heimildum fréttastofu. Eins og áður hefur komið fram mun bandaríkjamaðurinn Lee Buchheit, leiða nefndina en auk hans eiga sæti í nefndinni þeir Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins og hæstaréttarlögmennirnir Jóhannes Karl Sveinsson og Lárus Blöndal.

Nefndin heldur ásamt ráðgjöfum til Bretlands á morgun til viðræðna við breska og hollenska embættismenn.

Samkvæmt heimildum fréttastofu verður fyrst og fremst um upplýsingafund að ræða en ekki eiginlegar viðræður um nýjan Icesave samning. Til stendur að nefndin kynni áherslur Íslendinga í málinu.

Enn liggur ekki fyrir hvort Bretar og Hollendingar séu tilbúnir til nýrra Icesave viðræðna en samkvæmt heimildum fréttastofu ætti það að skýrast á næstu dögum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×