Innlent

Öll ráðuneytin eiga að fylgja stefnu Vísindaráðs

Menntamálaráðherra styður eflingu samkeppnissjóða í úthlutun opinberra framlaga til rannsókna og þróunarstarfs. Myndin tengist fréttinni ekki beint. 
Fréttablaðið/Vilhelm
Menntamálaráðherra styður eflingu samkeppnissjóða í úthlutun opinberra framlaga til rannsókna og þróunarstarfs. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Fréttablaðið/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra telur að stefna eigi að því að hlutfall opinberra fjármuna til rannsókna og þróunarstarfs fari að meira leyti í gegnum samkeppnissjóði en nú er gert. Hún segir það opinbera stefnu stjórnvalda og telur að öll ráðuneyti ættu að fylgja þeirri stefnu.

„Þetta er stefna Vísinda- og tækniráðs, sem er sá aðili sem markar stefnu stjórnvalda,“ segir Katrín í samtali við Fréttablaðið.

„Hlutur samkeppnissjóða hefur verið að aukast undanfarið þótt það hafi ekki alfarið komið til af góðu. Samkeppnissjóðir hafa verið skornir niður um fjögur prósent síðustu þrjú ár á meðan framlög til háskóla hafa verið skorin niður um sextán prósent. Það sýnir okkar forgangsröðun, en við vildum helst sjá þetta hlutfall fara upp í um það bil þriðjung, sem er svipað og er í nágrannalöndum okkar.“

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu upp á síðkastið hefur fyrirkomulag rannsóknarsjóða og opinberra framlaga til rannsókna og þróunarstarfs sætt gagnrýni í fræðasamfélaginu. Þar er kallað eftir því að fjármunum sé dreift í gegnum samkeppnissjóði. Það felur í sér að óháð faglegt ráð, skipað alþjóðlega viðurkenndum vísindamönnum, meti umsóknir um styrki og fylgi því eftir með mati á verkefnunum, sem sé svo lagt til grundvallar þegar viðkomandi sæki um styrki að nýju.

Sérstaklega hafa spjótin staðið á Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem hefur tæplega 2,4 milljarða króna til rannsóknarstarfs. Þar af renna um 1,3 milljarðar til Hafrannsóknastofnunar, en afgangurinn fer meðal annars í gegnum hina ýmsu sjóði.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins fyrr í mánuðinum sagði Jón að ekki stæði til að breyta fyrirkomulaginu, til dæmis með því að færa sjóðina undir Rannsóknarsjóð. Með núverandi skipulagi væri „stuðlað að beinni tengingu við atvinnuvegina“, sem væri í samræmi við óskir aðila í sjávarútvegi og landbúnaði, og ráðuneytið styddi þeirra sjónarmið.

Katrín segir hins vegar að stjórnvöld skuli fylgja sömu stefnu hvað varðar framlag til rannsókna og þróunarstarfs, óháð ráðuneytum. „Ég lít á það þannig. Í Vísinda- og tækniráði sitja margir ráðherrar. Þar er stefna stjórnvalda mótuð og það skiptir máli að fylgja því eftir.“

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×