Innlent

Össur Skarphéðinsson á símafundi með Miliband í kvöld

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mun eiga símafund með David Miliband utanríkisráðherra Bretlands í kvöld þar sem Icesave málið verður til umræðu. Össur segir að hann hafi verið í miklu sambandi við sendiherra Íslands í London í dag sem hefði rætt við breska ráðmenn.

„Í samtali mínu við Miliband mun ég leggja áherslu á að ákvörðun forsetans þýði alls ekki að við ætlum ekki að standa við skuldbindingar okkar," segir Össur í samtali við fréttastofuna.

Össur segir að þar að auki muni hann benda Miliband á að staða Íslands sé mun verri en hún þyrfti að vera vegna aðgerða breskra stjórnvalda í bankahruninu haustið 2008 og til þess þurfi Bretar að taka tillit.

„Ég mun síðan ræða við Miliband um að það þarf að leita lausnar á þeirri djúpu kreppu sem komin er upp í samskiptum okkar og Bretlands," segir Össur. „Þá lausn ber að finna eftir hefðbundnum diplómatískum leiðum en ekki hörkulegum einhliða yfirlýsingum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×