Innlent

Lithái grunaður um smygl sendur til Færeyja í skýrslutöku

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms þess efnis að senda eigi Litháískan karlmann sem er í gæsluvarðhaldi hér á landi til Færeyja til þess að bera vitni í smyglmáli. Einn dómari Hæstaréttar skilaði sératkvæði og vildi fella úrskurðinn úr gildi. Maðurinn verður líklega sendur til Færeyja með Norrænu í kvöld í ljósi ótryggra flugsamgangna við Færeyjar sökum eldgoss í Eyjafjallajökli.

Norræna kemur raunar meira við sögu í málinu því maðurinn er í haldi hér á landi ásamt tveimur löndum sínum eftir að þrjú kíló af metamfetamíni og 4.200 e-töflur fundust í bíl sem var á leiðinni til landsins með Norrænu. Tveir Litháar til viðbótar er í haldi í Færeyjum og vilja Færeyingar fá Litháann til landsins til þess að gefa skýrslu í málinu. Heimildir fréttastofu herma að hann óttist mjög að verða ákærður í Færeyjum vegna málsins og átt á hættu að fá mun þyngri dóm en þann sem vofir yfir honum hér á landi.

Sératkvæði Jóns Steinars

Að mati meirihluta Hæstaréttar eru lagaskilyrði uppfyllt í málinu en Jón Steinar Gunnlaugsson var ósammála því og skilaði því sératkvæði. Hann bendir á að dómur hafi ekki verið kveðinn upp yfir manninum hér á landi en hann bíður nú dóms. Jón Steinar bendir á að samkvæmt lögum sé það skilyrði fyrir því að verða megi við beiðni annars ríkis um að maður verði sendur þangað til yfirheyrslu sem vitni, að hann sé „fangelsaður eða sviptur frelsi samkvæmt dómi vegna refsiverðs verknaðar". Jón segir þessu skilyrði ekki fullnægt í máli varnaraðila og því hefði átt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×