Innlent

Hátt í 3000 sóttu sýningar Borgarleikhússins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Leikritið um þá félaga Harry og Heimi var sýnt tvisvar í gær. Mynd/ GVA.
Leikritið um þá félaga Harry og Heimi var sýnt tvisvar í gær. Mynd/ GVA.
Hátt í 3000 gestir sóttu leiksýningar Borgarleikhússins í gær að sögn Magnúsar Geirs Þórðarsonar leikhússtjóra. Hann segir að átta sýningar hafi verið settar upp. Það sé fáheyrður eða jafnvel einstæður atburður að svo margar sýningar séu settar upp á einum degi, en uppselt hafi verið á allar sýningarnar.

Leiksýningarnar Fólkið í kjallaranum og Harry og Heimir voru hvor um sig sýndar tvisvar í gærkvöldi en auk þeirra var Enron á Stóra sviðinu og barnasýningin Horn á höfði á því litla. Til viðbótar bætist að Faust, í uppsetningu Borgarleikhússins í samstarfi við Vesturport, var sýnt tvisvar fyrir troðfullu húsi í Young Vic leikhúsinu í London.

Magnús Geir bendir á mörg atriði sem valdi auknum áhuga á leikhússtarfinu. „Það er nú yfirleitt þannig að verkefnavalið ræður mestu um aðsóknina og sýningarnar vekja áhuga. Það er nú yfirleitt afspurn frá þeim gestum sem hér hafa komið sem selur mest. En síðan þarf náttúrlega að vekja áhuga á sýningunum með kynningu og þess háttar og það hefur líka lukkast að flestu leyti afar vel," segir Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×