Lífið

Hannar nokkrar línur í einu

Arna Sigrún Haraldsdóttir og Edda Guðmundsdóttir hanna undir merkjum Black.
Arna Sigrún Haraldsdóttir og Edda Guðmundsdóttir hanna undir merkjum Black. Fréttablaðið/Stefán

Fatahönnuðirnir Edda Guðmundsdóttir og Arna Sigrún Haraldsdóttir eru þær fyrstu til að hanna undir merkjum Black-merkisins. Ekki er ljóst hvað af hönnuninni fer í framleiðslu.

Black er verkefni sem miðar að því að hjálpa ungum fatahönnuðum að koma línum sínum á almennan markað. Linda Björg, fagstjóri Fatahönnunardeildar LHÍ, stendur að verkefninu ásamt Margréti Bjarnadóttur. Fatahönnuðirnir Edda Guðmundsdóttir og Arna Sigrún Haraldsdóttir eru þær fyrstu til að hanna undir merkjum Black og frumsýndu þær hönnun sína í kjölfar tískusýningar annars árs nema við fatahönnun í LHÍ.

„Þessi lína var forlína og hún er í raun ennþá í þróun. Einhverjar flíkur gætu farið í framleiðslu en það á eftir að koma betur í ljós. Það eru erfiðir tímar í fatahönnun eins og í mörgu öðru og verkefnið sjálft er svo nýtt að það er í raun ennþá verið að leggja línurnar að því. Við erum þó báðar byrjaðar að hanna nýja línu undir merkjum Black,“ útskýrir Edda. Hún segist þó taka að sér að sérsauma flíkur úr línunni fyrir áhugasama tískuunnendur og segir það hjálpa til við að fjármagna næstu fatalínu.

Edda hefur ekki setið auðum höndum undanfarið því ásamt því að hanna undir merkjum Black hefur hún unnið að eigin línu auk þess sem hún og systir hennar, Sólveig Ragna Guðmundsdóttir arkitekt, hanna saman undir nafninu Shadow Creatures. Aðspurð segir Edda ekki flókið að hanna svo margar fatalínur í einu. „Nei, það er ekkert erfitt að fá hugmyndir að öllum þessum línum. Ég hef skipt þessu niður í tímabil og einbeiti mér bara að einu verkefni í einu. Línan sem ég hanna með systur minni verður aðeins sumarlegri og glaðlegri en hinar og ég býst við að hún verði fáanleg í júní.“

Hægt er að skoða Black-línurnar á Facebook-síðum Eddu og Örnu Sigrúnar. sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.