Lífið

Bankahrunið sem pásumerki

Oscar býr til afmælismerki á Facebook í frístundum sínum.
Oscar býr til afmælismerki á Facebook í frístundum sínum.

Grafíski hönnuðurinn Oscar Bjarnason hefur í frístundum sínum búið til afmælismerki fyrir vini og kunningja á Face­book. Núna eru merkin orðin 106 talsins. Á síðasta ári gerði hann merki fyrir eins árs afmæli bankahrunsins og stutt er síðan tveggja ára afmælismerki þess leit dagsins ljós. „Það er með íslenska fánanum og pásumerki. Það er ekkert búið að gerast síðan síðast,“ segir Oscar um ástand mála eftir hrunið. Spurður hvernig hann haldi að þriggja ára afmælismerkið líti út segist hann ekki hafa hugmynd. „Það væri dásamlegt að sleppa því að þurfa að gera það.“

Oscar hefur það sem reglu að eyða helst ekki meira en tíu mínútum í hvert merki. Notfærir hann sér Facebook til að sjá hver á afmæli í hvert sinn. Á meðal kunnra einstaklinga sem hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi að komast á merkjalistann hjá honum eru Hemmi Gunn, Ómar Ragnarsson og John Lennon.

Oscar er margverðlaunaður hönnuður. Hann var á meðal átta sérfræðinga sem heimasíða dagblaðsins New York Times leitaði álits hjá um nýtt merki hjá leigubílum New York-borgar. Japanski fataframleiðandinn UNIQLO keypti einnig af honum merki hans Systm fyrir fatalínu sína. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.