Innlent

Gerðu hróp að bæjarfulltrúum og mótmæltu ráðningu Lúðvíks

Mynd/Sigurjón
Hátt í eitt hundrað mótmælendur komu saman þegar fyrsti bæjarstjórnarfundur nýrrar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar fór fram í dag. Fólkið mótmælti ráðningu Lúðvíks Geirssonar sem bæjarstjóra en hann féll úr bæjarstjórn í kosningunum í lok síðasta mánaðar. Mótmælendur gerðu hróp að bæjarfulltrúum og gáfu bæjarstjórninni rauða spjaldið.

Meirihluti Samfylkingarinnar féll í kosningunum í lok maí og náði Lúðvík sem gegnt hefur embætti bæjarstjóra síðastliðinn átta ár ekki kjöri. Eftir kosningarnar hófu Samfylkingin og Vinstri grænir viðræður um myndun meirihluta.

Samkomulag flokkanna felur í sér að Lúðvík verður bæjarstjóri til ársins 2012. Frá þessu var gengið formlega á bæjarstjórnarfundinum sem hófst klukkan tvö í Hafnarborg. Það varð til þess að mótmælendur púuðu og sýndu bæjarstjórninni rauða spjaldið. Nokkrir þeirra hrópuðu auk þess „Við mótmælum" og „Þetta er ekki lýðræði."

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun og sögðust ekki geta samþykkt ráðningu Lúðvíks í ljósi þess að hann náði ekki kjöri í bæjarstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×