Erlent

Tyrkneska þingið dregur úr völdum dómara

-AP- Tyrkneska þingið samþykkti í gær stjórnarskrárbreytingar sem gagnrýnendur segja til þess ætlaðar að styrkja völd ríkisstjórnarinnar á kostnað dómsvaldsins.

Stjórnin fékk þó ekki nægilega mikið fylgi við breytingarnar til þess að þær taki gildi fyrr en þær hafa verið bornar undir þjóðina. Líklega mun því forseti landsins efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja fyrirkomulagið í sumar.

Dómsvaldið hefur frá stofnun tyrkneska lýðveldisins árið 1923 látið veraldleg sjónarmið vera ráðandi, en núverandi stjórn, sem komst til valda árið 2003, er hins vegar byggð á íslömskum grunni. Stjórnin segir hins vegar breytingunum ætlað að styrkja lýðræðið í landinu, efla rétt kvenna og barna og tryggja persónuvernd. Stjórnin hefur áður takmarkað völd hersins, sem styður ákaft hina veraldlegu undirstöðu ríkivaldsins og hefur fjórum sinnum bylt ríkisstjórnum síðan 1960.

Breytingarnar fela meðal annars í sér að hægt sé að draga herforingja fyrir borgaralega dómstóla frekar en herdómstóla. Líklegt þykir að stjórnarskrárbreytingarnar verði samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu, því Recep Tayyip Erdogan forsætisráðherra nýtur mikils fylgis meðal landsmanna.- gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×