Lífið

Júlí bleytir dansgólf

Júlí Heiðar með vinkonum sínum.
Frumflytur hálftíma af nýjum lögum.
Júlí Heiðar með vinkonum sínum. Frumflytur hálftíma af nýjum lögum.

Mikil uppsveifla er um þessar mundir í íslensku tæknivæddu poppi, sem helst fær athygli á útvarpsstöðvunum FM957 og Flash. Í kvöld verða haldnir tónleikar á Apótekinu, þar sem nokkrir þessara poppara sýna listir sínar.

Aðaltónlistarmaður kvöldsins er Júlí Heiðar, en hann hefur að undanförnu verið að skjótast upp á stjörnuhimin íslenskra unglinga. Júlí sver sig í ætt við fyrirbæri eins og Silvíu Nótt og Gillzenegger og ekki er alveg á hreinu hvort hann er algjörlega einlægur í yfirgengilegum töffaraskap sínum og karlrembu.

Júlí hefur að minnsta kosti vakið athygli. Á aðeins þremur mánuðum hefur hann náð að spila á þremur framhaldsskólaböllum, fengið nær 40 þúsund spilanir á lög eins og „Nýja hún“ og „Blautt dansgólf“ á Youtube, komið fram á fjölmörgum skemmtistöðum, verið hent út af Nasa fyrir ósiðsamlega hegðun á sviði auk þess sem það eru til fimmtán aðdáendasíður og grúppur um hann á samskiptavefnum Facebook. Júlí ætlar að frumflytja um það bil hálftíma af nýjum lögum.

Auk Júlí koma fram rapparinn Gummzter og Kristmundur Axel, sem gert hefur garðinn frægan í undirheimum rappsins. Sérstakur heiðursgestur á tónleikunum er sjálfur Haffi Haff.

Tvennir tónleikar eru í boði. Þeir fyrri eru fyrir 13-16 ára unglinga og eru frá kl. 18 til 20.30. Seinni tónleikarnir eru fyrir 16 ára og eldri og standa yfir frá kl. 21 til miðnættis. Forsala miða fer fram í Outfitters Nation í Kringlunni.

- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.