Innlent

Vildu koma í veg fyrir brottflutning hersins með stuðningi við stríð

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Stuðningur Íslands við innrás Bandaríkjamanna í Írak árið 2003 var til að koma í veg fyrir að Bandaríkjamenn lokuðu herstöðinni á Miðnesheiði. Þetta sýnir minnisblað úr utanríkisráðuneytinu.

Ísland var á lista hinna staðföstu þjóða sem birtur var hinn 18. mars 2003, tveimur dögum áður en Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra réðust inn í Írak.

Í minnisblaði sem Guðni Bragason, sendifulltrúi, skrifaði eftir að hann og sendiherra Íslands í Washington gengu á fund embættismanns í bandaríska utanríkisráðuneytinu í mars 2003 og tilkynntu formlega um stuðning Íslands við innrásina kemur fram að fulltrúar íslenskra stjórnvalda hefðu vakið athygli Bandaríkjamanna á því að á sama tíma og Bandaríkjastjórn væri að leita eftir stuðning væru fyrirætlanir um að loka herstöðinni, að því er fram kemur í Fréttatímanum í dag.

Minnisblað Guðna er birt í heild sinni Fréttatímanum í dag. Þar segir að sendiherrann og Guðni hafi gengið á fund Heather Conley, varaaðstoðarutanríkisráðherra fyrir Norður og Mið-Evrópu. Á fundinum hafi sendiherrann viljað undistrika að ákvörðun um að fara á lista hinna staðföstu þjóða hafi ekki verið auðveld sérstaklega í ljósi þess að Íslandi hafi ekki haft yfir herafla að ráða.

Í ljósi komandi alþingiskosninga hefði ríkisstjórnin því tekið mikla áhættu með þessum afgerandi stuðningi við hernaðaraðgerðir án samþykkis Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna. Þá hafi sendiherrann minnt á að Ísland gæti orðið skotmark hryðjuverkasamtaka vegna stuðningsins.

Þá segir í minnisblaðinu að Heather Conley hafi sagst vilja segja, án þess að það yrði haft eftir, að Bandaríkjastjórn áttaði sig vel á að stuðningur ríkja við aðgerðirnar væri dýrkeyptur.

Á henni hafi mátt skilja að stuðningur Íslands myndi hafa jákvæð áhrif á umfjöllun bandaríska varnarmálaráðuneytisins um málefni sem útistandandi væru í varnarsamstarfi ríkjanna hver svo sem niðurstaðan yrði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×