Handbolti

Eigum að vera grófir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar

Leikstjórnandinn austurríski, Vitas Ziura, telur að möguleikar Austurríkismanna á EM í handbolta sem hefst á morgun felist í að vera eins grófir og dómararnir leyfa.

"Við eigum að vera grófir," sagði Ziura í samtali við austurríska fjölmiðla en heimamenn mæta Dönum í fyrsta leik EM á morgun.

Austurríkismenn þóttu ganga langt í æfingaleik gegn Þýskalandi á dögunum og gagnrýndi landsliðsþjálfari Þjóðverja, Heiner Brand, þá mikið eftir leikinn.

Ziura gaf þó ekki mikið fyrir þá gagnrýni. "Mér er alveg sama. Svona er handboltinn," sagði hann.

Ziura leikur með Viborg í Danmörku og sagði að Danir hafi ekki búist við miklu af Austurríkismönnum þegar dregið var í riðla á sínum tíma.

"Danir hlógu bara og tóku okkur greinilega ekki alvarlega. En ef við höldum okkar striki fyrstu 20 mínútur leiksins gegn þeim fáum við áhorfendur með okkur og þá er allt hægt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×