Skoðun

Gagnrýnin hugsun og háskólastarf

Tólf prófessorar við HR og HÍ skrifar
Í Fréttablaðinu þann 21. október skrifar menntamálaráðherra meðal annars: „Menntun felst ekki aðeins í að fá þjálfun í tilteknu starfi eða verklagi. Hún felst í að efla þroska sinn og skilja hvað felst í því að vera maður. Hún felst í því að temja sér gagnrýna hugsun þannig að hver og einn geti tekið sjálfstæða og gagnrýna afstöðu í flóknum málum. Lengi vel hefur þetta verið undirstaða alls háskólanáms í Bandaríkjum Norður-Ameríku að háskólanemar taka grunn í heimspeki, listum og öðrum húmanískum fögum sem á að þjóna þessum tilgangi."

Ráðherra lýsir síðan yfir áhyggjum sínum af hnignun húmanískra greina innan háskólanna og þar sé hugsanlega að leita skýringa á skorti á gagnrýnni hugsun í íslensku samfélagi í aðdraganda hrunsins.

Í þessari grein endurspeglast sú skoðun ráðherra að gagnrýnni hugsun sé fyrst og fremst (og kannski eingöngu) þjónað af húmanískum greinum. Ef það er rétt, þá er það rökrétt ályktun að leggja þurfi mun meiri áherslu á húmanískar greinar til að efla gagnrýna hugsun og þannig bæta samfélag okkar.

Við teljum hins vegar ekki rétt að undanskilja raunvísindi og rökhugsun raunvísinda frá gagnrýnni hugsun. Rökhugsun sú sem er grunnur raunvísinda byggir á gagnrýnni hugsun. Vísindaleg aðferð og sú málefnalega umræða, oft óvægin, sem tíðkast í hinni vísindalegu aðferðafræði á sér djúpar rætur innan raunvísinda. Í rökstuðningi sínum segir ráðherra að í bandarískum háskólum sé öllum skylt að taka námskeið í húmanískum greinum til að læra gagnrýna hugsun. Það er rétt að víða er gerð krafa um að raunvísindanemar taki námskeið í húmanískum greinum en það sem vantar í röksemdarfærslu ráðherra er að þetta gildir í báðar áttir. Algengast er að allir nemendur bandarískra háskóla verði að taka námskeið í raungreinum, félagsvísindum og húmanískum fræðum.

Hugsunin á bak við þetta er fyrst og fremst að nemendur öðlist breiða menntun, en að sjálfsögðu ekki sú að fólk læri gagnrýna hugsun í einhverjum afmörkuð kúrsum í húmanísku greinunum en haldi síðan áfram að læra til síns starfs eða verklags í hinum fögunum. Gagnrýnni hugsun er þvert á móti haldið á lofti á öllum stigum náms í húmanískum greinum, félagsvísindum og raungreinum.

Markvissasta leiðin til að efla gagnrýna hugsun í háskólastarfi er að stórefla vísinda- og fræðastörf við háskólana. Húmanískar greinar, raunvísindi og aðrar fræðigreinar háskólanna munu eflast og gagnrýnin hugsun fá aukið vægi ef kennarar þessara skóla eru öflugir fræðimenn sem taka þátt í alþjóðlegum vísinda- og fræðastörfum. Án gagnrýninnar hugsunar og greiningar mun vísindum ekki vinda fram. Breið þekking eflir gagnrýna hugsun og húmanísk fræði eiga ekki einkarétt á henni.

Anna Ingólfsdóttir, prófessor HR

Arnar Pálsson, dósent HÍ

Einar Steingrímsson stærðfræðingur

Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor HÍ

Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor HR

Ingibjörg Harðardóttir, prófessor HÍ

Karl Ægir Karlsson, dósent HR

Luca Aceto, prófessor HR

Magnús Már Halldórsson, prófessor HR

Ólafur Sigmar Andrésson, prófessor HÍ

Snorri Þór Sigurðsson, prófessor HÍ

Þórarinn Guðjónsson, dósent HÍ




Tengdar fréttir

Háskólar í mótun III

Háskólar og æðri menntun gegna æ mikilvægara hlutverki í nútímasamfélagi. Í stuttu máli felst meginhlutverk háskóla í að efla vísindi og fræði með rannsóknum og kennslu; leggja grunn að sérhæfðri fagmennsku; vera grundvöllur framþróunar og nýsköpunar en jafnframt gagnrýnið afl í samfélaginu sem byggir á akademísku frelsi. Óhætt er að fullyrða að háskólar landsins hafi mjög margþættu hlutverki að gegna.




Skoðun

Sjá meira


×