Innlent

Kalla eftir kraftmeiri uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs

Ferðaþjónustuaðilar í Skaftárhreppi gagnrýna að ekki skuli staðið við fyrirheit um uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs enda geti hann skilað miklum verðmætum í þjóðarbúið.

Lög um Vatnajökulsþjóðgarð tóku gildi fyrir rúmum tveimur árum. Þjóðgarðarnir í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum voru sameinaðir og til varð nýr garður sem tekur til eins sjöunda hlutar Íslands. Gestastofur voru fyrir í Ásbyrgi og Skaftafelli en fyrirheit gefin um öfluga uppbyggingu þjónustunets með fjórum nýjum gestastofum. Smíði er aðeins hafin á einni þeirra, á Skriðuklaustri.

Eva Björk Harðardóttir, hótelstjóri Hótels Laka í Vestur-Skaftafellssýslu, segir að fjármagn skorti. Það sé glæpasamlegt að opna þjóðgarð án þess að vera í stakk búinn að taka á móti fólkinu.

Það eitt að hann skuli vera stærsti þjóðgarður Evrópu skynja ferðaþjónustuaðilar nú þegar að hafi sterkt kynningargildi meðal erlendra ferðamanna. Erla Fanney Ívarsdóttir, ferðaþjónustubóndi á Geirlandi á Síðu, segir að mjög mikið sé farið að spyrja um þjóðgarðinn og hann sé að komast á blað.

Sveitarstjóri Skaftárhrepps, Bjarni Daníelsson, vonast eftir víðtækari uppbyggingu; að Vatnajökulsþjóðgarður verði til þess að þekkingarsetur byggist upp á svæðinu. Að merkileg jarðsaga leiði til þess að háskólastofnanir komi sér þar upp aðstöðu.

Skaftfellingar segja Vatnajökulsþjóðgarð skapa tækifæri sem verði að nýta. Eva Björk Harðardóttir segir að gera verði þetta með glans því þjóðgarðurinn komi til með að skila miklum verðmæti, bæði fyrir héraðið og þjóðarbúið í heild.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×