Erlent

Vilja syni og eiginmenn lausa

Undanfarna daga hefur hópur kvenna á Kúbu krafist þess að synir þeirra, eiginmenn og aðrir ástvinir verði látnir lausir úr fangelsi. Þeir voru handteknir fyrir sjö árum fyrir andóf gegn stjórnvöldum.

Konurnar hafa efnt til mótmælaaðgerða í höfuðborginni Havana daglega síðan á mánudag, en á fimmtudag voru sjö ár liðin frá því mennirnir voru handteknir.

Þann dag mættu jafnframt hundruð stuðningsmanna stjórnarinnar til leiks, umkringdu konurnar og gerðu hróp að þeim en leyfðu þeim þó að halda áfram göngu sinni. Lögreglumenn stóðu einnig vörð um konurnar til að tryggja að þær kæmust ferða sinna.

Andófsmennirnir handteknu eru 75 og sitja allir enn í fangelsi. Þeir voru handteknir þegar stjórn Fidels Castro barði niður mótmælaöldu, sem stjórnin sagði vera runna undan rifjum Bandaríkjanna.

Einn andófsmannanna, Orlando Zapata Tamayo, lést í síðasta mánuði eftir langt hungurverkfall. Lát hans vakti hörð viðbrögð á Vesturlöndum.

Evrópuþingið hefur fordæmt stjórnina vegna láts hans og nú hefur hópur mennta- og listamanna á Vesturlöndum, þar á meðal spænski leikstjórinn Pedro Almadovar, efnt til undirskriftasöfnunar gegn Kúbustjórn.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×