Innlent

Ólína í hálkuslysi: „Úff þetta er orðið stjórnlaust“

Valur Grettisson skrifar
Ólína Þorvarðardóttir var heppin. Hún slapp ómeidd.
Ólína Þorvarðardóttir var heppin. Hún slapp ómeidd.

Þingmaður Samfylkingarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, komst í hann krappan í gær þegar bifreið sem hún ók snérist í hringi á ísilögðum veginum í Borgarfirði, nærri Munaðarnesi.

Sjálf lýsir Ólína óhappinu á bloggi sínu.

„Ég var sumsé á leið heim frá Blönduósi í kvöldmyrkrinu, eftir fund með sveitarstjórnarmönnum þar í dag, var komin í námunda við Munaðarnes í Borgarfirði og ætlaði að taka fram úr öðrum bíl sem var á rólegri ferð.

Það var ekki nokkur leið að átta sig á þeirri flughálku sem skyndilega hafði myndast þarna. Að vísu gaf hitamælirinn í bílnum vísbendingu, því hann féll úr 3° niður í -1° á skömmum tíma án þess að ég tæki eftir því fyrr en of seint.

En ekki hafði ég fyrr tekið í stýrið til að taka fram úr en bíllinn fór að rása. Það var mildi að ég skyldi ekki slengjast utan í hinn bílinn - en það slapp til," skrifar þingmaðurinn.

Og það er margt sem fer í gegnum huga þeirra sem lenda í slíkum háska. Svona lýsir Ólína reynslu sinni:

„Þessar sekúndur (eða mínútur) sem liðu frá því bíllinn fór að rása með vaxandi slynk, þar til hann hafnaði úti í móa eftir að hafa farið tvo heila hringi á flughálum veginum - þær voru eins og heil elífð.

Undarlegt hvað hugurinn var samt rór og greinandi meðan á þessu stóð. „Á ég að láta hann fara út af? Nei ég reyni einu sinni enn að halda honum inni á .

Úff, þetta er orðið stjórnlaust, hann tekur hring - best að fylgja hreyfingunni og reyna svo að stefna honum út af veginum. Nú, annar hringur - hvar endar þetta. Nú velt ég!"

Ólína var heppin. Hún komst heim heil á húfi, hún var þó dálítið óstyrk innra með sér. Í lok færslunnar skrifar hún: Helvítis hálkan ….. blessuð mildin."

Þess má reyndar geta að þetta er ekki fyrsta óhappið sem Ólína lendir í. Hún sofnaði undir stýri á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×