Innlent

Sparnaðarinn hverfur með auknum flutningskostnaði

Frá fundinum í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Mynd/Halldór Sveinbjörnsson
Frá fundinum í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Mynd/Halldór Sveinbjörnsson
Áformaður niðurskurður hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða skilar litlu en skaðar mikið því stór hluti sparnaðar hverfur með auknum flutningskostnaði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í úttekt sem gerð hefur verið á efnahags- og samfélagslegum áhrifum fyrirhugaðs niðurskurðar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en hún var kynnt á borgarafundi í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði sem hófst klukkan 18. Það voru þau Dóra Hlín Gísladóttir, verkfræðingur, og Kristinn Hermannsson, hagfræðingur, sem unnu skýrsluna fyrir svokallað Heimavarnarlið, sem eru grasrótarsamtök sem vilja standa vörð um heilbrigðisþjónustu á norðanverðum Vestfjörðum.

„Verði fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða skornar niður um 185 milljónir króna eins og lagt er til í fjárlagafrumvarpi ársins 2011 mun það varlega áætlað skila innan við 30 milljóna króna raunverulegum sparnaði fyrir ríkissjóð. Stór hluti áætlaðs sparnaðar hverfur með auknum flutningskostnaði," segir í fréttatilkynningu frá Heimavarnarliðinu.

Þar segir einnig: „Nái þessi niðurskurðarkrafa fram að ganga má hins vegar búast við að segja þurfi upp fimmta hverjum starfsmanni Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, eða um 35manns í 22 stöðugildum. Þá munu ómæld viðbótarútgjöld leggjast á íbúa og fyrirtæki á svæðinu vegna sjúkraferðalaga til Reykjavíkur og vegna lengri fjarveru með tilheyrandi vinnutapi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×