Lífið

Kvikmyndatónlist fylgir frelsi

Semur af tilfinningu Gunnlaug Þorvaldsdóttir samdi tónlistina fyrir stuttmynd sem sýnd var á Sundance. Hér er hún ásamt leikstjóra og framleiðanda myndarinnar.
Semur af tilfinningu Gunnlaug Þorvaldsdóttir samdi tónlistina fyrir stuttmynd sem sýnd var á Sundance. Hér er hún ásamt leikstjóra og framleiðanda myndarinnar.

Gunnlaug Þorvaldsdóttir samdi tónlistina fyrir stuttmyndina A‘mare sem var meðal annars sýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í janúar síðastliðinn. Myndin er í leikstjórn Martina Amati og fjallar um tvo drengi sem fara á haf út og ætla sér að veiða „þann stóra“.

Aðspurð segir Gunnlaug spennandi að stuttmyndin hafi verið sýnd á Sundance. „Það var auðvitað æðislegt að myndin hafi verið sýnd á svona stórri kvikmyndahátíð, en verðlaunin fyrir mér voru þau að leikstjórinn var svo ánægð með vinnu mína að hún bað mig um að semja tónlistina fyrir næstu tvær myndir sínar. Þá hlýtur maður að vera að gera eitthvað rétt,“ segir Gunnlaug sem hefur verið búsett í Róm síðan 2006 þar sem hún starfar sem tónlistarkona og nemur söng hjá japönsku söngkonunni Michiko Hirayama.

Gunnlaug segir skemmtilegt að semja tónlist fyrir kvikmyndir enda fylgi því ákveðið frelsi. „Þetta er eitthvað sem ég hefði áhuga á að gera meira af í framtíðinni. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og þegar maður semur kvikmyndatónlist þá þarf maður að setja sig í öðruvísi stellingar en þegar maður semur til dæmis fyrir sjálfan sig. Þegar ég samdi tónlistina fyrir A‘mare hafði ég ekki séð myndina sjálfa heldur bara lesið handritið og þannig fékk ég tilfinningu fyrir andrúmslofti myndarinnar,“ útskýrir hún.

Gunnlaug er um þessar mundir að vinna að handriti fyrir heimildarmynd, en myndin mun fjalla um ævi söngkennara hennar, Michiko Hirayama. „Ég er eiginlega rétt að byrja að skrifa handritið. Hirayama er 86 ára í dag og er sannkallaður brautryðjandi í nútímasöng, enda hefur hún alltaf farið eigin leiðir,“ segir Gunnlaug að lokum. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.