Innlent

Taka ekki veikindafrí af ótta við að missa vinnuna

Slæmt atvinnuástand hefur valdið því að fólk á hinum almenna vinnumarkaði nýtir ekki kjarasamningsbundin réttindi af ótta við að missa vinnuna. Dæmi eru um að fólk þori ekki að taka veikindafrí og sætti sig við laun langt undir taxta.

Atvinnuleysi mældist 7,1 prósent í síðasta mánuði en búist er við því að atvinnulausum muni fjölga í vetur.

Um fjögur þúsund og fimm hundruð einstaklingar hafa verið atvinnulausir í meira en eitt ár og rúmlega sjö þúsund lengur en í sex mánuði.

Ástandið er þegar byrjað að grafa undan réttindum launþega á hinum almenna vinnumarkaði. Fjölmörg dæmi eru um að fólk þori ekki að nýta sér kjarasamningsbundin réttindi af ótta við að missa vinnuna.

Guðmundur Gunnarsson, formaður rafiðnaðarsambandsins, sagði í samtali við fréttastofu í dag að þetta ástand sé búið að vera viðvarandi allt frá hruni og fari versnandi. Fólk þori ekki að gera athugasemdir þegar það fær greitt undir taxta og veigri sér við að taka veikindafrí.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, tekur undir þetta og segir að það ríki ótti meðal launþega. Fólk afli sér upplýsinga um sín réttindi en þegar á hólminn er komið þori það hins vegar ekki að taka slaginn við yfirmenn og vinnuveitendur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×