Innlent

Ari Gísli fornbókasali er nú laus allra mála

Ari Gísli Bragason og Böðvar Yngvi Jakobsson ásamt verjanda í dómsal.
Fréttablaðið/Pjetur
Ari Gísli Bragason og Böðvar Yngvi Jakobsson ásamt verjanda í dómsal. Fréttablaðið/Pjetur
Þætti Ara Gísla Bragasonar bóksala í ákæru vegna stórfellds þjófnaðar bóka úr dánarbúi Böðvars heitins Kvaran var vísað frá dómi í gær. Böðvar Yngvi Jakobsson játaði hins vegar sök í málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Málið snýst um hundruð verðmætra bóka og korta sem stolið var úr dánarbúinu seinni hluta ársins 2006 og fyrri hluta ársins 2007. Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og sonur Böðvars, kærði málið til lögreglunnar sumarið 2007.

Ari Gísli var sakaður um að hafa tekið við fornbókum til sölu. Hann er nú laus allra mála og verjanda hans hafa verið dæmd málsvarnarlaun úr ríkissjóði.

Aðstandendur Böðvars Kvarans krefjast um 33 milljóna í skaðabætur fyrir horfnu bækurnar, sem eru samkvæmt ákæru um 300 talsins. Þar á meðal var útgáfa af Snorra-Eddu og Völuspá frá 17. öld og Konungasögur Snorra Sturlusonar frá árinu 1633. Verðmæti bókanna samtals er áætlað um 40 milljónir króna.

„Þetta er bara í ferli,“ sagði Böðvar Yngvi þegar Fréttablaðið náði tali af honum vegna málsins í gær og bætti við að hann vildi ekki tjá sig um það við fjölmiðla.“- jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×