Lífið

Fimleikastjarna leikur í Faust

Svava Björg svífur um sviðið með litla púka-vængi á bakinu og í svörtum latex-búningi í leikritinu Faust.
fréttablaðið/vilhelm
Svava Björg svífur um sviðið með litla púka-vængi á bakinu og í svörtum latex-búningi í leikritinu Faust. fréttablaðið/vilhelm

Fimleikakonan Svava Björg Örlygsdóttir leikur djöfla og gamalmenni í leikritinu Faust sem verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu 15. janúar. „Þetta er æðislegt,“ segir Svava Björg, sem verður í þremur hlutverkum. „Þetta er rosalega skemmtilegt fólk sem ég er að vinna með og manni leiðist ekkert á æfingum.“

Gísli Örn Garðarsson, leikstjóri Faust, og Jóhannes Níels Sigurðsson, sem sér um að koma leikurunum í gott form, æfðu báðir fimleika í Ármanni, rétt eins og Svava Björg. Hún er margfaldur Íslands- og bikarmeistari í hópfimleikum auk þess sem hún varð Norðurlandameistari í hópfimleikum 2007 og í öðru sæti á tveimur Evrópumótum í hópfimleikum. Sú reynsla nýtist henni heldur betur vel í Faust, þar sem hún hopppar út um allt í svörtum latex-búningi með litla púka-vængi á bakinu.

Hún segir að engin hætta sé á ferðum í Borgarleikhúsinu þrátt fyrir allan hamaganginn. „Alls ekki. Við erum alltaf með öryggið til staðar og erum ekkert að ana út í neitt. Þetta virðist margt vera mjög hættulegt en auðvitað er ekki hægt að láta okkur gera neitt sem er hættulegt, þá yrði engin sýning. Maður þarf bara að láta vaða,“ segir hún og óttast engan sviðsskrekk þrátt fyrir að þetta sé fyrsta leiksýningin hennar.

„Maður er vanur að gera alls konar hluti enda hef ég yfirleitt verið ein í fimleikunum. Ég get ekki beðið.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.