Innlent

Meint pólskt þjófagengi tekið

Héraðsdómur úrskurðaði mennina í vikulangt gæsluvarðhald.
Héraðsdómur úrskurðaði mennina í vikulangt gæsluvarðhald.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók fimm pólska karlmenn í vikunni, sem grunaðir eru um innbrot í heimahús. Fjórir mannanna hafa verið úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald og sá fimmti var leiddur fyrir dómara síðdegis í gær.

Á mánudagsmorgun var fyrsti maðurinn handtekinn þar sem hann var við innbrot í Hamrahverfi, að sögn Árna Þórs Sigmundssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á lögreglustöð 4. Í kjölfarið voru þrír til viðbótar handteknir og hafa þeir allir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Í fyrradag var svo fimmti maðurinn handtekinn. Hann reyndist vera með þýfi á sér, sem talið er vera úr einu þeirra innbrota sem lögregla rannsakar nú.

Árni Þór segir að nú sé unnið að rannsókn á nokkrum óupplýstum innbrotum, þar á meðal í Grafarvogi, Norðlingaholti og Mosfellsbæ. Þá séu sumir mannanna grunaðir um innbrot í Breiðholti. Viðkomandi lögreglustöðvar vinni sameiginlega að rannsókn þessara mála.

Sumir mannanna hafa komið við sögu hjá lögreglu áður, meðal annars vegna þjófnaðarbrota.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×