Lífið

Hundrað skráðir á milljónapókermót

Valur Heiðar, mótsstjóri Pókersambandsins, segir Íslandsmótið stefna í að verða það stærsta sem haldið hefur verið hér á landi.
Valur Heiðar, mótsstjóri Pókersambandsins, segir Íslandsmótið stefna í að verða það stærsta sem haldið hefur verið hér á landi.
„Það á eftir að bætast hellingur við. Við búumst við að þetta verði 200 manna mót og það er allt útlit fyrir að það gangi upp,“ segir Valur Heiðar Sævarsson, formaður mótanefndar Pókersambands Íslands.

Yfir eitt hundrað keppendur eru skráðir til leiks á Íslandsmótið í póker sem fer fram á Hótel Örk í Hveragerði dagana 15. til 17. október. 60.000 krónur kostar að skrá sig á mótið, en einnig er hægt að komast inn með því að vinna smærri mót víða um land og á vefsíðu Betsson. Heildarvinningsfé er því komið yfir sex milljónir. Valur og félagar búast við um 200 keppendum og ef það rætist fer vinningsfé yfir tíu milljónir króna.

„Á síðasta Íslandsmóti fjölgaði skráningum mikið þegar tíu dagar voru í mót. Þá gerðist alveg svakalega mikið. Það var mikið af liði sem hafði verið að draga þetta – maður er að festa 60.000 kall þannig að fólk bíður með það,“ segir Valur.

Valur segist hafa heyrt gagnrýni á þátttökugjald mótsins, sem er 20.000 krónum hærra en á síðasta Íslandsmóti. „Mönnum finnst þetta hátt, en þetta er mjög lágt miðað við sambærileg mót úti um allan heim,“ segir Valur og bendir á að hægt sé að vinna sig inn á netinu fyrir afar lágar upphæðir. Hann segir pókerheiminn taka vel í mótið, sem stefnir í að vera það stærsta sem haldið hefur verið hér á landi. „Maður er að heyra að menn séu orðnir gríðarlega spenntir.“ - afb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.