Erlent

Ísraelsstjórn vill byggja

Mynd/AP

AP Ráðherrar í ríkisstjórn Benjamins Netanjahú lýstu fullum stuðningi við hann í gær, þegar hann kom heim frá Bandaríkjunum. Þar hafði Barack Obama forseti reynt árangurslaust að fá hann til að stöðva áform um byggingar í austurhluta Jerúsalemborgar.

„Ég þakka Guði fyrir að hafa fengið það tækifæri að vera sá ráðherra sem samþykkir byggingu þúsunda íbúða í Jerúsalem," sagði Eli Yishai innanríkisráðherra, sem hefur umsjón með byggingarframkvæmdum í borginni. Hann sagðist staðráðinn í að þær framkvæmdir héldu áfram.

Palestínumenn gera það að skilyrði allra frekari friðarviðræðna við Ísraela að byggingarframkvæmdum fyrir gyðinga í hverfum araba verði hætt. Palestínumenn vilja að austurhluti Jerúsalemborgar verði höfuðborg sjálfstæðs Palestínuríkis.

Tilraunir Baracks Obama og Bandaríkjastjórnar til að hleypa nýju lífi í friðarviðræður hafa strandað á þessu deilumáli, sem snúist hefur upp í alvarlegasta ágreining bandarískra og ísraelskra stjórnvalda í langa tíð.

Netanjahú forsætisráðherra hefur lengi verið fylgjandi framkvæmdum af þessu tagi, en jafnvel þótt hann vildi verða við kröfum Bandaríkjamanna ætti hann erfitt með að fá harðlínuflokka í stjórn sinni í lið með sér.

Bandaríkjamenn líta þessa deilu alvarlegum augum, eins og sjá má af ummælum bæði frá Hillary Clinton utanríkisráðherra og David Petreus herforingja, sem segja hana grafa undan markmiðum Bandaríkjanna víðar í heiminum og kynda undir öfgahópum og hryðjuverkamönnum.

Netanjahú virtist hafa þessi ummæli í huga þegar hann sagði í ræðu í vikunni að gyðingahatur byggi að baki þeirri skoðun að „ef Ísrael væri ekki til, þá myndu mörg helstu vandamál heimsins hverfa".

Hann ítrekaði jafnframt að Ísraelar gerðu tilkall til allrar Jerúsalemborgar: „Jerúsalem er ekki landnemabyggð. Hún er höfuðborg okkar."

Palestínumenn virðast almennt á þeirri skoðun að meðan Netanjahú er við völd sé engin von til þess að friðarsamningar takist.

Abdúllah Jórdaníukonungur sagði hins vegar í gær að með landtökubyggðum sínum væri Ísraelsstjórn að leika sér að eldinum. Hún verði að taka ákvörðun um það hvort hún vilji frið eða stríð.

gudsteinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×