Innlent

Gat ekki sagt nei við kallinu

Friðbjörn Sigurðsson Mun starfa á sjúkrahúsi í höfuðborg Haítí sem almennur læknir.fréttablaðið/pjetur
Friðbjörn Sigurðsson Mun starfa á sjúkrahúsi í höfuðborg Haítí sem almennur læknir.fréttablaðið/pjetur

„Íslenski Rauði krossinn hafði samband við mig um hvort ég gæti starfað með þýska Rauða krossinum við að koma upp spítala í Port-au-Prince. Það er verið að reisa þessa læknamiðstöð núna og ég mun starfa þar sem almennur læknir í mánuð ef allt gengur vel,“ segir Friðbjörn Sigurðsson, læknir á Landspítalanum, sem hélt áleiðis til Haítí í nótt.

Friðbjörn segir ástæðuna fyrir för sinni að hann hafi setið námskeið Rauða krossins og því hafi hann verið á lista yfir fólk sem tilbúið er að taka að sér sérstök verkefni eins og þetta. „Ég hef líka dvalið í landinu áður og erfiðara að segja nei þess vegna.“

Friðbjörn dvaldi á Haítí fyrir tveimur áratugum á þeim tíma sem hann stundaði sérnám í lyflækningum í Bandaríkjunum. Þá dvaldi hann á Albert Schweitzer-sjúkrahúsinu sem er inni í miðju landi. Friðbjörn segir það hafa verið mikla lífsreynslu. „Vera mín í landinu á þeim tíma verður þó örugglega hátíð miðað við það sem bíður mín nú,“ segir Friðbjörn.

Friðbjörn flaug af landi brott með vél utanríkisráðuneytisins í nótt. Vélin, sem nær í íslensku alþjóðabjörgunarsveitina, er hlaðin hjálpar­gögnum sem sjálfboðaliðar hafa gengið frá síðustu sólarhringa.

Friðbjörn segist vera í launalausu leyfi frá LSH á meðan hann dvelur erlendis en, eins og venja er til, greiðir Rauði krossinn Friðbirni laun þann tíma sem hann dvelur á Haítí. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×