Lífið

KK semur Þjóðhátíðarlagið

KK semur Þjóðhátíðarlagið í ár sem verður frumflutt á for-þjóðhátíð í Reykjavík í sumar.
KK semur Þjóðhátíðarlagið í ár sem verður frumflutt á for-þjóðhátíð í Reykjavík í sumar. Fréttablaðið/GVA

Kristján Kristjánsson, best þekktur sem KK, semur Þjóðhátíðarlagið í ár en það verður frumflutt á sérstakri for-Þjóðhátíð sem halda á í Reykjavík í sumar. Þetta verður í fyrsta skipti sem þessi háttur verður hafður á, að sögn Tryggva Más Sæmundssonar en hann á sæti í Þjóðhátíðarnefndinni. Allar hljómsveitir sem koma fram á Þjóðhátíð um verslunarmannahelgina troða upp á reykvísku hátíðinni en bæði Dikta og Páll Óskar Hjálmtýsson hafa boðað komu sína. Rúsínan í pylsuendanum verður auðvitað flutningur Þjóðhátíðarlags KK en hann tekur við keflinu af Bubba Morthens sem átti lagið í fyrra ásamt Egó.

KK var staddur á Akranesi eftir að hafa þurft að sigla í land undan brælunni á Faxaflóa. „Ég fékk þetta verkefni strax í janúar og hef eiginlega legið yfir því bæði dag og nótt síðan," grínast KK með en hann bjóst við því að fara með lagið í hljóðver strax eftir helgi. Hann ætlar að syngja það sjálfur og hafði ekki gert ráð fyrir því að fá í lið með sér einhverja gestasöngvara. „En ef svo fer, þá hóa ég bara í þá úr hljóðverinu." KK hefur þegar spilað lagið fyrir konuna sína og Eyþór Gunnarsson, mág sinn. Og að eigin sögn voru þau bæði ákaflega hrifin. „Þetta er lag í ljúfari kantinum, svona týpiskt KK-lag enda hlýtur það að vera það sem þeir vilja fyrst þeir báðu mig um að semja það. Annars vona ég bara að lagið henti vel fyrir Þjóðhátíð í Eyjum."

KK hefur oft spilað á Þjóðhátíð og það er ekki óalgengt að lög eftir hann séu kyrjuð inní hinum frægu hvítu hústjöldum sem skreyta Herjólfsdalinn yfir verslunarmannahelgina, Besti vinur og Vegbúinn þar vinsælust. „Eyjamenn eru duglegastir allra Íslendinga að syngja, þeir syngja sig í gegnum allt, gleði, sorg og erfiðleika. Það er því mikil ábyrgð sem fylgir þessum lagasmíðum," segir tónlistamaðurinn en fyrsta Þjóðhátíðarlagið var Ég veit þú kemur eftir Ása í bæ og Oddgeir Kristjánsson, það var samið fyrir Þjóðhátíðina í Eyjum árið 1962.

freyrgigja@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.